Innlent

Fannst í gegnum kerfi INTERPOL og Schengen

Karlmaður sem í gær var dæmdur í 11 mánaða fangelsi fyrir að hafa skallað lögreglumann í höfuðið og hótað þremur lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra ofbeldi og lífláti var handtekinn í Kaupmannahöfn fyrir tveimur vikum eftir lögreglusamvinnu á alþjóðavettvangi.

Fram kemur í frétt frá lögreglunni að maðurinn hafi verið ákærður fyrir brotið í vor en ekki mætt til þingfestingar í héraðsdómi í sumar. Um síðustu mánaðamót fékk svo alþjóðadeild Ríkislögreglustjórans beiðni frá dómsmálaráðuneytinu um að lýsa eftir manninum á alþjóðavettvangi í gegnum upplýsingakerfi INTERPOL og Schengen og leiddi það til þess að hann var handtekinn 11. október í Kaupmannahöfn og í framhaldinu framseldur til Íslands.

Þykir lögreglu þetta mál til marks um það hve hratt alþjóðleg lögreglusamvinna getur gengið fyrir sig fyrir tilstuðlan INTERPOL- og Schengen-samstarfsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×