Innlent

Smyglaði fíkniefnum átta sinnum í fangelsið

Fangavörðurinn sem handtekinn var fyrir að smygla fíkniefnum inn í fangelsið á Litla-Hrauni hefur játað að hafa, gegn peningagreiðslu, í alls átta skipti, frá því hann hóf störf við sumarafleysingar s.l. vor, flutt fíkniefni inn í fangelsið. Hald hefur verið lagt á peninga á bankareikningi fangavarðarins.

Lögreglan í Árnessýslu hefur nú yfirheyrt 5 einstaklinga sem hafa allir viðurkennt að hafa afhent fangaverðinum fíkniefni til að flytja inn í fangelsið. Þeir hafa allir komið við sögu fíkniefnamála áður og 3 þeirra eru fyrrverandi refsifangar í fangelsinu.

Fangavörðurinn sem handtekinn var og úrskurðaður í gæsluvarðhald s.l. laugardag var látinn laus síðla dags s.l. þriðjudag. Við yfirheyrslur hefur hann játað að hafa, gegn peningagreiðslu, í alls átta skipti, frá því hann hóf störf við sumarafleysingar s.l. vor, flutt fíkniefni inn í fangelsið.

Hann var með um 150 gr. af ætluðu hassi og um 35 gr. af ætluðu amfetamíni þegar hann var handtekinn. Upplýsingar um magn fíkniefna í hverri hinna ferðanna verða ekki gefnar að svo stöddu.

Í þágu rannsóknar málsins var lagt hald á tiltekna peningaupphæð á sérstökum bankareikningi fangavarðarins.

Ekkert hefur komið fram við rannsókn lögreglu sem styður fullyrðingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum um að hann hafi einnig afhent föngum síma til notkunar innan fangelsinsins.

Tveir refsifangar eru enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Það rennur út á morgun og enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á framlengingu þess.

Rannsókn málsins er að mestu lokið og verður það sent ákæruvaldinu til meðferðar innan tíðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×