Innlent

Dómsmálaráðuneytið segir Árna uppfylla skilyrðin

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Dómsmálaráðuneytið segir Árna Johnsen hafa afplánað fangelsisdóm sinn og uppfylli að öllu leyti skilyrði fyrir því að fá uppreist æru. Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu er hins vegar hvorki staðfestar né hraktar fréttir Fréttablaðsins um að búið sé að skrifa undir uppreist Árna.

Árni Johnsen segir að sér hafi ekki verið tilkynnt formlega að honum hafi verið veitt uppreisn æru, en hann sótti um það í júní síðastliðnum. Handhafar forsetavalds skrifuðu undir nauðsynlega pappíra um þetta í fjarveru forseta Íslands að sögn Fréttablaðsins.

Ef búið er að veita Árna Johnsen uppreist æru þýðir það að kjörgengi hans í alþingiskosningum í vor er óskorað. Aðspurður hvort hann hyggi á framboð í alþingiskosningum í vor ef rétt reynist að hann hafi óflekkað mannorð á ný sagði hann ekki tímabært að taka ákvörðun um það en nefndi að hann hefði fundið fyrir töluverðum þrýstingi frá kjósendum.

Forseti getur veitt mönnum uppreist æru, samkvæmt 84ðu grein hegningarlaga, eftir fimm ár frá fullnustu refsingar, svo fremi sem brotið hafi verið fyrsta brot dæmda sem hefur skerðingu borgararéttinda í för með sér og að fangelsisvist hafi ekki numið meira en einu ári. Þessi frestur getur styst niður í tvö ár ef dæmdi hefur hegðað sér vel á þessu tímabili.

Í febrúar voru tvö ár frá því Árni var látinn laus af Kvíabryggju og lagði hann því inn umsókn um uppreist æru til dómsmálaráðuneytisins í júní. Handhafar forsetavalds í fjarveru forseta Íslands, það er forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti hæstaréttar, skrifuðu að sögn Fréttablaðsins upp á skjal þessa efnis að tillögu dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar nú nýverið. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur dvalið erlendis undanfarið í einkaerindum og því skrifuðu handhafar forsetavalds upp á beiðnina í fjarveru hans.

Fyrir þá sem velta fyrir sér hvaðan orðið uppreisT með t-i komi, þá er þetta orð samkvæmt orðabók Menningarsjóðs kvenkyns nafnorð sem hefur sömu merkingu og orðið uppreisn. Ástæða fyrir því að þessi orðmynd er notuð í fréttum af þessu máli í öllum fjölmiðlum er sú að svona er þetta orðað í lögum um kosningar til Alþingis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×