Innlent

Erill hjá lögreglunni í Reykjavík í nótt

MYND/Pjetur

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Reykjavík í gærkvöld og nótt vegna mikillar ölvunar í miðbænum. Þurftu þónokkrir að leita á slysadeild vegna áverka eftir slagsmál en enginn þeirra var þó alvarlega slasaður.

Tíu gista nú fangageymslur lögreglunnar, þar af þrír sem teknir voru í Breiðholtslaug fyrir að baða sig þar í nótt. Voru þeir í fimmtán manna hópi sem þar hafði komið sér fyrir um klukkan þrjú í nótt en flestir flýðu upp úr lauginni þegar lögregla kom á vettvang. Þremenningarnir voru hins vegar ekki á því að yfirgefa laugina og voru þeir því færðir á lögreglustöðina þar sem þeir sofa nú úr sér ölvímu.

Þá hafa níu verið teknir fyrir ölvunarakstur frá því í gærkvöld, þar af einn sem ók á staur í austurborginni. Hann var fluttur á slysadeild með minni háttar meiðsl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×