Innlent

Lýðheilsustofnun lætur lögfræðinga kanna lögmætið

Lýðheilsustöð hefur ákveðið að láta lögfræðinga sína skoða lögmæti þess að gefa sígarettur í beinni útsendinu. Útvarpsstöðin XFM hefur í allan dag verið að gefa forsýningarmiða á myndina "Takk fyrir að reykja" (Thank You For Smoking) sem verður frumsýnd á föstudag í Smárabíói og Regnboganum. Boðsmiðarnir sem gefnir hafa verið gilda á sérstaka forsýningu á fimmtudag í Smárabíói en útvarpsstöðin lét sígarettu fylgja hverjum miða.

Þá var það sagt skilyrði að hlustandi reykti til að fá miða. Enginn undir 18 ára aldri fékk miða. Þá segir í tilkynningu frá markaðsstjóra kvikmyndadeildar Senu, sem dreifir myndinni, að útvarpsstöðin muni auk þessa bjóða upp á sígarettur á undan mynd í Smárabíói á fimmtudag.

Í lögum um tóbaksvarnir segir meðal annars að hvers konar auglýsingar á tóbaki og reykfærum séu bannaðar hér á landi en með auglýsingum er meðal annars átt við dreifingu vörusýna. Í tóbaksvarnarlögunum segir ennfremur að hvers kyns framlög til viðburða eða starfsemi sem miða að því eða hafa þau beinu eða óbeinu áhrif að kynna tóbak séu bönnuð. Brot gegn þessum ákvæðum eða reglum sem settar eru á grundvelli laga um tóbaksvarnir varða sektum en fangelsi allt að tveimur árum séu sakir miklar eða brot ítrekað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×