Innlent

Hæstiréttur staðfestir dóm yfir Ramsey

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir Scott Ramsey sem varð dönskum hermanni að bana á veitingastaðnum Traffic í Keflavík árið 2004.


Héraðsdómur Reykjaness hafði dæmt Scott Mckenna Ramsey í átján mánaða fangelsi, þar af fimmtán mánuði skilorðsbundið, í október síðastliðnum fyrir að hafa orðið danska hermanninn Flemming Tolstrup að bana á skemmtistaðnum Traffic í Keflavík í nóvember 2004. Ramsey kýldi Tolstrup í hálsinn með þeim afleiðingum að slagæð rifnaði og blæðing sem Flemming hlaut milli heila og heilahimna leiddi til dauða hans.


Ramsey viðurkenndi strax á vettvangi að hafa slegið hann og sagði ástæðuna þá að Flemming hefði stöðugt verið að áreita sambýliskonu hans. Fyrir héraðsdómi hafði Ramsey játað brotið skýlaust og þótti sannað að andlát Flemmings hefði verið bein afleiðing hnefahöggsins sem hann veitti honum.


Ramsey er skoskur og hefur verið búsettur hérlendis, en hann lék meðal annars knattspyrnu með Grindavík og KR. Hann á ekki neinn sakaferil að baki. Í dómi Hæstaréttar segir að ekki sé talið að Ramsey beitt sérlega hættulegri aðferð við atlöguna og var ljóst að afleiðingar af hnefahöggi hans urðu mun alvarlegri en við mátti búast. Hann hafi framið brotið í skammvinnri geðshræringu. Hins vegar verði ekki litið fram hjá hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af broti Ramseys.
Hæstiréttur telur því rétt að staðfesta dóm héraðsdóms, átján mánaða fangelsi, þar af fimmtán skilorðsbundna og dregst eins dags gæsluvarðhald þar frá. Þá var úrskurður héraðsdóms um skaða- og miskabætur til handa foreldrum hins látna staðfestur, rúmar tvær milljónir króna. Ríkissjóður greiðir allan áfrýjunarkostnað.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×