Innlent

Brotthvarf Árna veikir Framsókn

Brotthvarf Árna Magnússonar af þingi og úr ráðherrastóli veikir Framsóknarflokkinn og Halldór Ásgrímsson, formann flokksins, segir Baldur Þórhallsson, dósent í stjórnmálafræði.

Baldur Þórhallsson var gestur í hádegisviðtalinu á NFS og fjallaði þar um hvaða áhrif afsögn Árna Magnússonar félagsmálaráðherra hefði á Framsóknarflokkinn og stjórnmálin. Hann sagði það erfitt fyrir Framsóknarflokkinn að áberandi forystumaður, sem oft væri nefndur sem næsti formaður flokksins, segði af sér. Þá væri þetta ekki til þess fallið að styrkja stöðu formanns flokksins.

"Halldór (Ásgrímsson) missir þarna einn af nánustu samstarfsmönnum sínum, búinn að missa Finn (Ingólfsson, fyrrverandi varaformann Framsóknar) nokkrum árum áður," sagði Baldur. "Hann þarf að taka inn, eða tekur inn, Siv sem hefur verið nokkuð gagnrýnin á hans störf. Það má vel vera að öldurnar lægi eitthvað, að minnsta kosti úr armi Sivjar.

Baldur telur þetta þó slæm tíðindi fyrir Framsóknarflokkinn. "Þetta er ekki gott fyrir flokkinn, talandi um að flokkurinn er ekki í góðri stöðu og mællist með um og undir tíu prósenta fylgi í skoðanakönnunum."

Baldur velti því jafnframt upp að ef til vill væri afsögn Árna til marks um ný viðhorf stjórnmálamanna til starfs síns. Hann nefnir Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrum þingmann Samfylkingarinnar, og Ásdísi Höllu Bragadóttur, fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ, sem dæmi um unga stjórnmálamenn á uppleið sem hafi hætt og farið til starfa á hinum almenna markaði. Hann segir að þetta kunni að vera til marks um að fólk komi frekar til starfa í stjórnmálum, verði þar um stund og haldi svo annað frekar en að það líti á starf stjórnmálamanns sem ævistarf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×