Innlent

Hlýindatímabili lokið í bili

Hlýindatímabilið er búið í bili og hitatölur eru aftur farnar að nálgast meðallag. Hiti var yfir meðallagi á Íslandi 31 mánuð í röð og árið 2003 var eitt hlýjasta ár sem mælst hefur hér á landi síðan um 1940.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að svo virðist sem síðasta hlýjindatímabili hafi lokið nú í vor. Þá hafði hiti verið yfir meðallagi í 31 mánuð í röð eða frá því síðla vetrar 2002. Í vor hafði hafís norðan við landið haft áhrif á meðalhita en maímánuður hafi verið nokkuð undir meðallagi. Einar segir að sumarmánuðirnir júní, júlí og ágúst hafi verið í meðallagi en september og október hafi verið vel undir meðallagi. Það sé sterk vísbending um að umræddu hlýindatímabili séu lokið og nú taki við annað ástand sem geti varað í nokkra mánuði eða ár. Árið 2003 var eitt hlýjasta ár sem mælst hefur á Íslandi en þá jafnaðist hitinn á við þær hitatölur sem mældust á árunum 1939 til 1941.

Einar segir erfitt að gera langtímaspá um veðurfar í vetur. Sjávarhiti og lofthingrásin ráði mestu þar um en sjávarhiti sé greinilega ekki jafnhár núna og á síðustu árum. Einar segir að erfitt sé að spá fyrir um lofthringrásina eða hvaðan lægðirnar og hæðirnar komi í vetur en slíkt sé sé oftast ekki ljóst fyrr en nokkrum dögum eða vikum áður en þær komi til landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×