Menning

Keyrir ferðamenn um Suður-Ameríku

"Þetta er svo hrikalega gaman og er hinn fullkomni lífsstíll ef maður hefur gaman af því að ferðast," segir Svava Ástudóttir, sem mun fljótlega taka við sinni fyrstu ferð sem hópstjóri á stórum trukk sem keyrir um Suður-Ameríku fyrir fyrirtækið Dragoman. "Ég fór sjálf í svona ferð um Tyrkland, Sýrland og Jórdaníu og það varð til þess að ég sótti um starf," segir Svava.

"Áður en maður hefur störf er níu mánaða þjálfun þar sem nemendur læra meðal annars bifvélavirkjun, enda verða leiðsögumenn að geta gert við bílinn hvar og hvenær sem eitthvað kemur upp á. Auk þess þarf maður að fara eina ferð til að læra rúntinn. Maður þarf að vera við öllu búinn og geta tekist á við aðstæður hverju sinni," segir Svava, sem einnig þurfti að ná sér í meirapróf og próf í skyndihjálp. Bíllinn sem hún keyrir rúmar vel um 25 manns auk þess sem hann geymir hluti sem þarf til ferðalagins. "Við erum meira að segja með ísskáp í bílnum og matar- og vatnsbirgðir sem duga í 2-3 vikur ef eitthvað kemur upp á," segir Svava. Auk hennar er bílstjóri í bílnum en hún er sú sem leiðir hópinn þó hún sjái einnig um að keyra. "Við skiptumst á að keyra en ég leiði hópinn," segir Svava.

Á ferðalaginu er gist á hótelum eða tjaldstæðum eða bara tjaldað úti í náttúrunni eða sofið á ströndinni. Bílstjórinn og hópstjórinn gista hins vegar yfirleitt uppi á bílnum.

Áður en hún fór á vit ævintýranna starfaði hún sem stílisti við verslunina ISIS í Smáralindinni og segist hún ekki hafa nein plön um framtíðina að ævintýrinu loknu. "Ég geri ráð fyrir að vera í þessu næstu 4-5 árin og vonandi fæ ég að fara til Kína og Afríku," segir Svava.

"Þetta er auðvitað ekki fyrir hvern sem er. Bíllinn er heimili manns og maður er í mjög nánu sambandi við samstarfsmann sinn og því getur þetta reynst erfiðara en hjónaband þar sem maður hefur ekkert prívat. En það er séð til þess að fólk vinni ekki saman lengur en í nokkrar vikur og svo er skipt," segir Svava og bætir við að góð stemmning myndist alltaf í hópnum á ferðalaginu og öllum líði vel.

Hún segir þessar ferðir alls ekki vera neinar venjulegar skoðunarferðir heldur sé bíllinn aðeins fararskjótinn. "Ferðirnar miðast við að fleygja manni í miðja menninguna og þær snúast ekki bara um að keyra heldur að kynnast menningu, landi og þjóð," segir Svava. Hún segir að fyrirtækið Dragoman sé á nokkrum stöðum með verkefni þar sem fólk láti gott af sér leiða og aðstoði jafnvel við kennslu í bekkjum í Afríku eða hjálpi til við að útbúa vatnsbrunna, auk þess sem boðið sé upp á sérstakar fjölskylduferðir.

"Ég á ekki orð til að lýsa því hvað þetta er meiriháttar, eftir að maður fer í svona ferð kemur maður ekki sama manneskja til baka," segir Svava.

Upplýsingar um ferðirnar er að finna á vefsíðunni Dragoman.com eða hjá Stúdentaferðum á Exit.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×