Innlent

Sagði sig úr Samfylkingunni

Aðalheiður Sigursveinsdóttir, sem kjörin var í stjórn Freyju, félags Framsóknarkvenna í Kópavogi, í síðustu viku sagði sig úr Samfylkingunni sama dag og hún var kjörin í stjórn Framsóknarfélagsins.  Eins og ítrekað hefur verið greint frá gerðust þau tíðindi á aðalfundi Freyju, félagi Framsóknarkvenna í Kópavogi, í síðustu viku að Aðalheiður Sigursveinsdóttir, eiginkona Páls Magnússonar, aðstoðarmanns iðnaðarráðherra, bar upp tillögu um nýskráningu 43 kvenna sem mættu á aðalfundinn. Aðalheiður var síðar kosin í stjórn félagsins ásamt tveimur þeirra sem komu á fundinn í hennar fylgdarliði. Hún hafnar því alfarið að þarna hafi hallarbylting átt sér stað.  Aðalheiður sagði í þættinum Íslandi í dag í gær að hún hefði ekki starfað í pólitík í ein sjö ár en hún hefði verið í gamla Alþýðuflokknum. Síðustu beinu afskipti Aðalheiðar af stjórnmálum munu vera stjórnarseta í Sambandi ungra jafnaðarmanna en hún var kosin formaður þess í apríl 1998 til tveggja ára. Hún sat þó ekki tímabilið til enda. Um þátttöku sína í stjórnmálaflokkum sagði Aðalheiður í sama þætti að hún hefði ekki starfað í stjórnmálum síðan hún var skráð í Alþýðuflokkinn. Aðalheiður hefur verið skráð í Samfylkinguna um langt skeið og sagði sig fyrst úr þeim flokki sama dag og hún fór á aðalfund hjá framsóknarkonum í Kópavogi og var kjörin þar í stjórn. Í ljósi þess verður eftirfarandi yfirlýsing Aðalheiðar um stuðning sinn við Framsóknarflokkinn enn athyglisverðari. Í Íslandi í dag í gær sagði hún nefnilega að hún hefði starfað með „óformlegum hætti í Kópavogi“ með því að styðja Framsóknarflokkinn þar í síðustu þremur kosningum. Aðalheiður gerir þá athugasemd við þessa frétt að hún hafi talið sig vera að skrá sig af póstlista Samfylkingarinnar. Hún hafi aldrei skráð sig í Samfylkinguna en hafi hins vegar verið skráð í Alþýðuflokkinn á sínum tíma og starfað fyrir Reykjavíkurlistann. Fréttastofan hefur staðfestar upplýsingar um að Aðalheiður var skráður félagi í Samfylkingunni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×