Menning

Hafa allir migið í saltan sjó

Lið Stýrimannaskólans skipuðu Geir Fannar Zoega sem telur sig Siglfirðing en er uppalinn á Akureyri, Sveinn Hjörleifsson sem kveðst alvöru Akureyringur og Jón Hafliðason frá Bakkafirði. Geir játar að valið í liðið hafi verið frekar ólýðræðislegt. "Ég skráði skólann í keppnina og neyddi svo Svein og Jón til að koma með mér. Hugmyndin var bara að vera með og við náðum tveimur dögum í æfingar," segir hann. Úrslitin urðu 20-9 Menntaskólanum á Egilsstöðum í vil. "Þetta eru gáfumenn þarna fyrir austan en ég held að það hafi nú gleymst að telja eitthvað af stigunum okkar. Við þurfum að fara yfir það og mæta svo í viðtal á DV," segir Jón. Sveinn tekur undir það. "Fáum kannski forsíðuna: Dómarinn svindlaði." Dregur síðan í land. "Annars er stigavörðurinn myndarkona þannig að við viljum ekkert vera að klekkja á henni." Í spjalli á alvarlegri nótum kemur fram að námið í Stýrimannaskólanum tekur fjögur ár ef menn koma beint úr grunnskóla. Nemendur eru um 50 í föstu námi í vetur og auk þess allmargir í fjarnámi. Fiskimenn stefna mest á annað stigið. Þriðja stigið er fyrir farmenn og fjórða stigið fyrir Landhelgisgæsluna og er bara kennt þegar gæsluna vantar menn. "Þetta er ágæt menntun og við getum farið í aðra skóla í framhaldinu," segir Sveinn. Allir hafa þeir þremenningar migið í saltan sjó og verið á hinum ýmsu skipum og með margskonar veiðarfæri. "Þeir sem eru í þessu eru mest harðjaxlar sem hafa kynnst sjómannslífinu og kunna að meta það," segir Geir en skyldu þeir ætla að keppa aftur fyrir skólann sinn á næsta ári? "Nei, sumir okkar verða hættir og aðrir orðnir of gamlir. Það er nefnilega aldurstakmark í keppninni, þess vegna gátum við ekki tekið prófessorana með okkur."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×