Innlent

Stuðningurinn stefnubreyting

Pétur Gunnarsson, skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins, sagði í pistli sínum á tímanum.is, málgagni Framsóknarflokksins, 14. janúar síðastliðinn: "Það var Karl Rove sem bjó til hugtakið "Listi hinna staðföstu þjóða". Það var engin pólitísk ákvörðun íslenskra stjórnvalda sem lá að baki því að nafn Íslands var skráð á þann lista, það var almannatengslaákvörðun, tekin í Hvíta húsinu, í því skyni að koma pólitískum skilaboðum á framfæri á einfaldan hátt við bandarískan almenning. Á því bera íslensk stjórnvöld ekki ábyrgð heldur starfsmenn Hvíta hússins og forseti Bandaríkjanna." Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, svaraði hins vegar spurningu Þórunnar Sveinbjarnardóttur á fundi utanríkismálanefndar 21. mars 2003, þremur dögum eftir að forsætisráðherra og utanríkisráðherra tóku þá ákvörðun að Íslendingar styddu innrásina í Írak. Þar óskaði hún eftir skýringum á því hvernig Ísland hafi lent á lista yfir hin 30 staðföstu ríki og hvernig það hafi farið fram. Halldór svaraði því til að það hafi gerst í samtölum milli embættismanna í forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti hinn 18. mars 2003. Af þessum orðum verður ekki annað ráðið en að ráðherrarnir tveir, Halldór og Davíð, hafi haft fulla vitneskju um tilvist þessa lista þegar þeir lýstu yfir stuðningi Íslendinga, þrátt fyrir það sem framsóknarmenn hafa viljað halda fram. Nú síðast í pistli Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra á frá því í gær sem birtist á heimasíðu hennar. Þar heldur Valgerður því fram að ekki hafi falist í ákvörðuninni við stuðninginn við innrásina að Ísland yrði sett á lista hinna staðföstu þjóða. "Spurningin var ekki hvort Ísland vildi vera á einhverjum lista. Sá listi var búinn til í Washington. Þess vegna er umræðan endalausa um listann óttalegt rugl," segir hún í pistlinum. Ekkert benti til að árás væri yfirvofandi Forsætisráðherra hefur ásamt öðrum ráðamönnum haldið því fram að ráðherrarnir tveir hafi ekki brotið gegn þingskaparlögum með því að kalla ekki til fundar utanríkismálanefndar áður en ákvörðunin var tekin. Á fundi nefndarinnar 21. mars var forsætisráðherra gagnrýndur fyrir þau vinnubrögð sem viðhöfð höfðu verið í ákvörðunarferlinu. Þar lýsti Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður nefndarinnar, því yfir að hún teldi að ákvæði 24. greinar laga um þingsköp Alþingis hefðu ekki verið brotin enda hefði afstaða stjórnvalda alltaf verið kunn. Í lagagreininni segir: "Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum." Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi það harðlega á fundinum að ríkisstjórnin hefði ekki haft samráð við nefndina svo sem lögskylt væri enda hefði stefnumótandi ákvörðun verið tekin af ríkisstjorninni sem færi gegn þeim grundvallaratriðum að ekki mætti ráðast gegn öðru ríki nema með samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hún benti jafnframt á að ekkert af því sem fram hefði komið í umræðunni um ástandið í Írak til þessa hefði gefið tilefni til þess að innrás væri yfirvofandi. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, tók undir orð Rannveigar á fundinum. Hann sagði að ekkert hefði áður komið fram sem hefði gefið ástæðu til að ætla að ríkisstjórnin myndi styðja hernaðaraðgerðir gegn Írak án undangenginnar ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þvert á móti hefði mátt búast við gagnstæðri afstöðu ríkisstjórnarinnar og vísaði til þess sem fram hefði komið á fundi utanríkismálanefndar 19. febrúar 2003. Halldór vildi gefa meiri tíma Á fundi nefndarinnar 19. febrúar 2003, rétt rúmum mánuði áður en Íslendingar lýstu yfir stuðningi við innrásina, lýsti Halldór Ásgrímsson því yfir að rétt væri að gefa vopnaeftirlitsmönnum meiri tíma og freista þess að ná friðsamlegri lausn. Rétt er að benda á að þetta var fyrsti fundur utanríkismálanefndar veturinn 2002 til 2003 þar sem málefni Íraks var tekið til umræðu. Þá sagði hann á fundinum að margt benti til þess að samstaða gæti náðst innan öryggisráðsins og ekki væri ólíklegt að ný ályktun yrði samþykkt þar sem Írak fengi nýjan tímaramma en ella yrðu Sameinuðu þjóðirnar að þvinga fram afvopnun. Þessi afstaða hans hafði áður komið fram, meðal annars í ræðu hans á Alþingi í lok janúar sama ár þar sem hann sagði: "það er alveg ljóst af okkar hálfu að við teljum algjörlega nauðsynlegt að þetta mál komi til umfjöllunar öryggisráðsins á nýjan leik." Á fundi utanríkismálanefndar 19. febrúar sagði Halldór jafnframt að samstaða hefði náðst innan Evrópusambandsins um hvernig ætti að nálgast Íraksmálið. Í meginatriðum væri afstaða sambandsins sú að Írak bæri skilyrðislaust að afvopnast en reynt yrði til þrautar að komast hjá átökum og vopnaeftirlitinu yrði gefinn meiri tími til að athafna sig. Hann nefndi því tvær mögulegar leiðir í málinu 19. febrúar: Annars vegar að Írakar féllust á afvopnun en hins vegar að öryggisráðið samþykkti ályktun þar sem samstaða næðist um aðgerðir. Tæplega mánuði síðar var farin þriðja leiðin, sem aldrei var nefnd sem hugsanlegur möguleiki, sem fólst í því eins og alþekkt er, að Bandaríkjamenn og Bretar réðust inn í Írak án samþykktar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, með stuðningi 30 þjóða - Íslendinga þar á meðal. Gerði ráð fyrir samþykkt öryggisráðsins Í máli Halldórs á fundinum 19. febrúar kom því fram afdráttarlaus afstaða ríkisstjórnarinnar til þess að ef til aðgerða gegn Írak kæmi, yrðu þær einungis gerðar með samþykki öryggisráðsins. Hann sagði að ákveðin hótun væri að hlaðast upp gagnvart Írak með liðsafnaði, fyrst og fremst herstyrk Bandaríkjanna og Bretlands. Aðrar þjóðir fái hins vegar það hlutverk að reyna að greiða úr málinu með diplómatískum hætti, til dæmis Frakkland og Rússland. Af þessum orðum má ráða að á þessu stigi málsins, tæpum mánuði fyrir innrásina í Írak, hafi ekkert gefið tilefni til þess að ráðist yrði í aðgerðir án stuðnings allra þeirra þjóða sem sæti eiga í öryggisráðinu, þar á meðal Frakka. Utanríkismálanefnd var því algjörlega óupplýst um skyndilega stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar sem tekin var með þeirri ákvörðun að styðja Bandaríkjamenn og Breta í innrásinni í Írak gegn vilja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×