Innlent

Ummæli um Írak stangast á

Samkvæmt orðum Halldórs Ásgrímssonar á Alþingi 12. mars 2003 hafði Íraksmálið aldrei verið rætt í ríkisstjórn. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra vill þó halda því fram að "...þetta Íraksmál [hafi] á síðustu árum verið margrætt í ríkisstjórn, utanríkismálanefnd, á vegum Alþingis og í flokkunum, á fundum flokkanna, fyrir og eftir þessa miklu ákvörðun". Orð Guðna stangast einnig á við orð flokksbróður hans, Magnúsar Stefánssonar þingmanns Framsóknarflokksins, sem jafnframt á sæti í utanríkismálanefnd. Í frétt á forsíðu Fréttablaðsins 24. mars 2003 sagði Magnús: "Við höfum ekki fjallað um þetta á þingflokksfundi, þannig að það liggur ekki fyrir nein umfjöllun um málið." Magnús er samhljóða Kristni H. Gunnarssyni, þingmanns Framsóknarflokksins, sem hefur margsagt að Íraksmálið hafi aldrei verið rætt í þingflokknum. Í yfirlýsingu forsætisráðherra frá því á mánudag kemur fram að "Íraksmálið [hafi verið] rætt nokkrum sinnum í utanríkismálanefnd og á Alþingi veturinn 2002-2003." Ekki er tekið fram í yfirlýsingunni hvort málið hafi verið rætt í ríkisstjórn. Síðar í yfirlýsingunni segir: "Að morgni þriðjudagsins 18. mars 2003 var ríkisstjórnarfundur og var Íraksmálið fyrsta málið á dagskrá." Ekki segir í yfirlýsingunni hvort málið hafi í raun verið rætt, einungis að það hafi verið á dagskrá. Fréttablaðið fékk ekki aðgang að fundargerð frá ríkisstjórnarfundinum. Halldór Ásgrímsson kaus að tjá sig ekki um málið í gær.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×