Innlent

Óverjandi að innheimta skólagjöld

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar segir óverjandi að innheimta skólagjöld í nýjum sameinuðum háskóla Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, ef af sameiningu þeirra verður, enda hafi ekki verði innheimt skólagjöld í Tækniháskólanum til þessa. Með því að innheimta skólagjöld yrði farið bakdyramegin við að koma á skólagjöldum í ríkisreknum háskólum. Nú standa yfir viðræður um sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tækniháskólinn er ríkisskóli og hefur því ekki innheimt skólagjöld, en það gerir Háskólinn í Reykjavík. Björgvin telur að skilyrði fyrir sameiningu skólanna sé að þar verði ekki innheimt skólagjöld af tækninámi sem Tækniháskólinn hafi til þessa boðið upp á. Hann segir að ef nemendur Tækniháskólans nú og í framtíðinni þurfi að greiða skólagjöld sé um hreina mismunun að ræða þar sem tækninám eins og kennt sé í Tækniháskólanum sé ekki til boða annars staðar. Það væri þá eini kosturinn fyrir fólk sem vildi læra tæknifræði að fara í hinn einkarekna skóla og borga fyrir það há skólagjöld. Fyrir þetta segir Björgvin að þurfi að girða áður en menn haldi lengra í að sameina skólana og menntamálaráðherra þurfi að taka allan vafa af um það að ekki sé verið að fara bakdyraleið að því að innleiða skólagjöld í ríkisháskólana. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, segir nýjan sameinaðan háskóla spennandi kost og telur eðlilegt að hann geti innheimt skólagjöld. Hún sjái fyrst og fremst fyrir sér stóran og öflugan háskóla sem eigi eftir að skila miklu fyrir íslenskt samfélag. Hún segir þó viðræðurnar ennþá formlegar. Það sé þó ekki ólíklegt ef þetta verði sjálfseignarstofnun að muni verða greidd skólagjöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×