Innlent

5 líkamsárásir kærðar

Fimm líkamsárásir voru kærðar í miðborg Reykjavíkur í nótt. Um þrjúleytið var kallað á sjúkrabíl að skemmtistaðnum Prövdu í Austurstræti eftir átök dyravarðar og eins gesta staðarins. Dyravörðurinn hafði hent gestinum út af staðnum og réðst gesturinn þá á dyravörðinn og sparkaði og sló í hann, samkvæmt upplýsingum lögreglu. Gesturinn var fluttur á slysadeild og hefur kært dyravörðinn fyrir ofbeldi en dyravörðurinn hefur kært gestinn á móti fyrir líkamsárás. Um fjögurleytið kom lögreglan að slagsmálum við gatnamót Lækjargötu og Vonarstrætis. Sá sem talinn var upphafsmaður og gerandinn í málinu var handtekinnn og fluttur á lögreglustöð. Um fimmleytið í morgun var lögreglan kölluð að heimahúsi við Grettisgötu en þar slógust tveir bræður á fimmtugsaldri. Annar þeirra fékk skurð í andlit og var fluttur á slysadeild. Óvíst er hvort þessi bræðraslagsmál verða kærð. Um hálfsexleytið var lögregla kölluð að skemmtistaðnum Ópus við Hafnarstræti. Þar hafði maður lamið annan. Fórnarlambið var flutt á slysadeild en árásarmaðurinn er ófundinn. Og um sexleytið í morgun ók lögreglan fram á slagsmál í Austurstræti við Lækjartorg. Þar var einn maður handtekinn og færður í fangageymslu. Af þessari lýsingu mætti ætla að allt hafi logað í slagsmálum í miðborginni í nótt en að sögn lögregluvarðstjóra þykir þetta ekki óvenju mikið, miðað við laugardagskvöld í Reykjavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×