Innlent

Lokuð geðdeild verður á Kleppi

Lokuð geðdeild fyrir einstaklinga sem taldir eru hættulegir sjálfum sér og umhverfi sínu verður staðsett á Kleppsspítala, að sögn Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra. Tuttugu einstaklingar eru sagðir falla undir þessa skilgreiningu, en þeir hafa verið inn og út af geðdeildum. "Við höfum sett á það fullan kraft núna að undirbúa móttöku og aðstöðu fyrir þessa einstaklinga innan geðdeildar LSH," sagði ráðherra. " Það hafa komið upp mjög vond einstaklingsmál, sem þarfnast úrræða. Við höfum eindregið verið þeirrar skoðunar að stærsta geðdeild landsins þurfi að meðhöndla slík mál." Nokkuð hefur tafist að koma þessari deild á laggirnar, meðal annars vegna skiptra skoðana um hvar ætti að staðsetja hana. Lengi vel var horft til Arnarholts eða Sogns í þeim efnum, en nú hefur Kleppsspítali orðið fyrir valinu. Ráðherra sagði að einnig væri unnið að eflingu þjónustu utan stofnana. Þar væri um að ræða sálfræðiþjónustu heilsugæslunnar, svo og endurhæfingu geðsjúkra, sem nokkrir aðilar hefðu með höndum. "Við höfum verið að auka fjárveitingar til heilsugæslunnar til þess að bæta við þjónustuna við geðsjúka, meðal annars til þess að koma upp teymi til að meðhöndla erfið tilfelli," sagði ráðherra. "Það teymi hefur tekið til starfa." Þá sagði hann starfandi nefnd þriggja ráðuneyta, sem fjallaði um sjálfræðissviptingamál þau sem upp kynnu að koma. Í henni sætu fulltrúar dómsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×