Innlent

Skattbyrði eykst mest á Íslandi

Skattbyrði á Íslandi hefur í valdatíð núverandi stjórnarflokka aukist margfalt meira en í nokkru öðru ríki Vesturlanda. Meðan skattbyrði í flestum iðnríkjum hefur verið að léttast hefur hún snarþyngst á Íslandi. OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, mælir skattheimtuna í hlutfalli af landsframleiðslu. Þetta er það hugtak sem jafnan er kallað skattbyrði en það sýnir hversu mikið hið opinbera tekur til sín af öllum þeim tekjum sem myndast í samfélaginu. Tölurnar sem birtar voru í gær sýna að hvergi í hinum vestrænu iðnríkjum jókst skattbyrði meira en á Íslandi milli áranna 2002 og 2003. Hlutfallsleg skattheimta á Íslandi hækkaði úr 38,1 prósenti upp í 40,3 prósent af landsframleiðslu. Þetta er í fyrsta sinn sem skattbyrði hérlendis mælist yfir 40 prósent. Núverandi stjórnarflokkar settust að völdum árið 1995. Á þeim tíma hefur skattbyrðin á Íslandi farið úr 31,8% upp í 40,3% sem er hækkun um 26,7%. Í Bandaríkjunum léttist skattbyrði úr 27,9% niður í 25,4%, skattaálögur minnkuðu þar um tæp níu prósent. Í Bretlandi er skattbyrðin nánast sú sama, breytingin er innan við eitt prósent. Skattbyrði í Þýskalandi fór úr 38,2% niður í 36,2%, þar drógu yfirvöld úr álögum á þegna sína um 5 prósent. Á Írlandi dró einnig úr skattheimtu, byrðin léttist niður í 30 prósent eða um 8,5%.  Í Noregi þyngdist skattbyrði úr 41,1% upp í 43,9% eða um tæp 7 prósent. Í Danmörku léttist skattbyrðin örlítið og fór niður í 49 prósent. Í Svíþjóð þyngdist skattbyrði á tímabilinu úr 48,5% upp í 50,8% eða um tæp fimm prósent. Í Finnlandi var álögum létt af landsmönnum niður úr 46,0% í 44,9% eða um 2,4%. Tölurnar sýna að skattbyrði er ennþá lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Hins vegar sker Ísland sig algerlega úr öðrum ríkjum þegar horft er til þyngingar skattbyrði. Þessar tölur lýsa í raun mikilli þjóðfélagsbreytingu sem orðið hefur á Íslandi frá 1995. Á þessum árum hefur hlutfall skatta hækkað úr tæplega 32 prósentum upp í yfir 40 prósent, sem þýðir að búið er að færa ráðstöfun á 70 milljörðum króna á ári frá skattþegnunum yfir til hins opinbera. Þessi talar jafngildir einni milljón króna á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×