Innlent

Traustsyfirlýsing eða áfall

Ólafur Ragnar Grímsson, nýkjörinn forseti Íslands, segir kosningaúrslitin afgerandi traustsyfirlýsingu og mjög sterkt umboð. Davíð Oddsson forsætisráðherra segir úrslitin hins vegar áfall fyrir Ólaf og að hyldýpisgjá hafi myndast á milli hans og þjóðarinnar. Forsetinn var gestur Stöðvar 2 í aukafréttatíma í hádeginu og sagðist þá vera þakklátur fyrir það traust sem þjóðin gæfi honum. Hann mæti það mikils miðað við þá lotu sem verið hefði síðustu vikur og mánuði. Hann gegni glaður til þeirra verka sem biðu hans. Um ummæli Davíðs sagði hann að honum væri frjálst að hafa þá skoðun en ljóst væri að ef Davíð hefði verið í framboði og fengið sömu atkvæði og Ólafur nú, hefði hann talið það glæsilega útkomu. Davíð óskaði Ólafi til hamingju með úrslitin en bar þau síðan saman við úrslit kosninganna árið 1988 þegar Vigdís Finnbogadóttir fékk sambærilegt mótframboð. Þar hefði hún fengið um 70 % af atkvæðabærum mönnum en Ólafur hefði einungis fengið um 40 %. Þessi gríðarlegi munur hlyti að endurspegla að fólkið vilji að forsetinn sé sameiningartákn en hafi ekki pólitísk afskipti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×