Innlent

Íslenska ríkið sýknað

Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið af tugmilljóna skaðabótakröfu konu sem fór í misheppnaða brjóstaminnkunaraðgerð fyrir 13 árum. Henni eru dæmdar ein og hálf milljón króna í miskabætur vegna mistaka sem lúta að útliti brjóstanna. Konan segist vera sár og hissa eftir dóminn og býst við að leita til mannréttindadómstóls Evrópu. Árið 1991 gekkst Jórunn Anna Sigurðardóttir undir brjóstaminnkunaraðgerð. Drep komst í hægra brjóst Jórunnar eftir aðgerðina og hefur hún síðan undirgengist átta lýtaaðgerðir til að lagfæra brjóstin. Jórunn telur að þrautagöngu hennar megi rekja til læknamistaka. Í dag féll loks dómur í Hæstarétti, í þriðju tilraun, því Hæstiréttur hefur tvívegis áður vísað máli hennar aftur til Héraðsdóms. Jórunn Anna krafðist rúmlega 22 milljóna króna í bætur en Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að saknæm mistök hefðu átt sér stað þegar drep komst í brjóst hennar. Því verði ekki lögð skaðabótaábyrgð á ríkið vegna þess tjóns sem Jórunn hefur orðið fyrir, en hún hefur verið úrskurðuð öryrki að hluta til síðan þetta gerðist. Hæstiréttur telur hins vegar að útlitsleg mistök hafi átt sér stað við aðgerðina sem ollu því að Jórunn Anna þurfti að gangast undir fleiri lýtaaðgerðir í kjölfarið. Jórunni voru dæmdar ein og hálf milljón króna í miskabætur. Hún segist sár og hissa yfir dóminum og að hann komi sér verulega á óvart. Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar ætlar Jórunn ekki að gefast upp í þessari baráttu sinni sem staðið hefur í á annan áratug. Hún segir þetta mannréttindabrot á sér, börnum sínum og fjölskyldu og býst við að leita til mannréttindadómstóls Evrópu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×