Innlent

Rauði krossinn veitti mikla aðstoð

Það fór ágætlega um þá sem gistu í Langholtsskóla í fyrrinótt og fengu sér árbít í húsakynnum KFUM og K handan Holtavegar í gærmorgun. Andrúmsloftið var afslappað en þreytu gætti í andlitum fólksins, sem hvorki vissi hvenær það kæmist heim á ný né um ástand híbýla sinna. Þegar atburður verður á borð við brunann í Hringrás er viðbragðskerfi Almannavarna virkjað og þar gegnir Rauði krossinn veigamiklu hlutverki. Hann annast félagslega fjöldahjálp sem snýst um að sjá um fólk eftir að það er komið af hættusvæði. Í því felst að sjá því fyrir húsnæði, fæði og öðrum nauðsynjum. Rauði krossinn starfrækir stjórnstöð á landsskrifstofunni í Efstaleiti og þaðan er starfið samhæft. Einstaka deildir eru viðbragðsaðilar og í þessu tilviki Reykjavíkurdeildin. Neyðarnefnd er virkjuð með SMS-boðum frá Neyðarlínunni og í framhaldinu er gripið til neyðaráætlunar. Fjöldahjálparstöðin í Langholtsskóla var sett upp í kringum miðnætti og hátt í þrjátíu Rauðakrossliðar voru komnir á vettvang fyrri part nætur. Langholtsskóli er ein nokkurra fjöldahjálparstöðva í Reykjavík og inni er kassi merktur Rauða krossinum sem geymir allt sem þarf til að opna stöðina, skráningarblöð og fleira. Rík áhersla er lögð á að skrá alla sem í miðstöðina koma og vel er fylgst með ferðum fólks.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×