Innlent

Aðeins verið að skila fjórðungi

Útgjöld ríkisins vegna vaxtabóta lækka um þrjúhundruð milljónir á næsta ári vegna breytinga á vaxtabótakerfinu sem lýst er í skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Jóhanna Sigurðardóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar, segir að útgjöld ríkisins vegna barnabóta hafi lækkað um tíu milljarða á níu árum. Fjórðungi þess verði skilað samkvæmt frumvarpinu nú. Einungis verða greiddar 95% af útreiknuðum vaxtabótum fyrir árið 2005 og mun það skila þrjúhundruð milljónum í ríkiskassann. Einnig verður hlutfall vaxtagjalda af skuldum lækkað úr 5,5% niður í fimm prósent árið 2006. Í fyrra var hlutfallið lækkað úr 7% í 5,5%. Það var réttlætt með því að raunvextir lána hefðu lækkað mjög mikið. Sú þróun hefur haldið áfram ekki síst með mikilli vaxtalækkun á íbúðalánum og segir í frumvarpinu að með breytingunni á vaxtabótakerfinu sé dregið úr hvata til frekari skuldsetningar. Alls kosta skattalækkanirnar ríkissjóð um 6,2 milljarða og frá því dregst svo lækkun vegna vaxtabótanna. Barnabætur hækka um 2,4 milljarða á árunum 2006 og 2007. Jóhanna Sigurðardóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar, segir á heimasíðu sinni að rétt sé að hafa í huga að barnabætur hafi lækkað verulega að raungildi frá því sem þær voru árið 1995, þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Á síðustu níu árum hafi útgjöldin verið um 10 milljörðum lægri en þau hefðu verið ef raungildi þeirra á þessum árum hefði haldist óbreytt frá því sem það var á árinu 1995. Á árunum 2006 og 2007 ætli ríkisstjórnin því að skila innan við fjórðungi þess sem barnafólk hafi verið hlunnfarið um á síðustu 10 árum. Það sé allt og sumt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×