Innlent

Davíð og Powell funda

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, situr nú á lokuðum fundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu  með Colin Powell, fráfarandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem þeir ræða framtíð Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Fundur Davíðs og Powells hófst um klukkan hálfsjö að íslenskum tíma og er áætlað að hann standi í 30 til 45 mínútur. Rætt verður um varnarmál og þá kröfu íslenskra stjórnvalda að fjórar herþotur á Keflavíkurflugvelli séu lágmarksvarnarviðbúnaður landsins. Ekki er búist við neinum stórtíðindum af þessum fundi aðeins að ráðherrarnir komi sér saman um nokkurs konar viðræðuáætlun. Davíð hefur lýst því yfir að fundurinn miði að því að koma viðræðunum í fastan farveg og eyða óvissu um framtíð varnarliðsins. Hann segist vona til þess að brátt stefni úr þeirri óvissu sem ríkt hafi um þessi mál. Það sé vel mögulegt að ákveðið verði hvernig framhaldsviðræðum verði hagað á fundinum í kvöld. Davíð segist hafa átt gott samstarf við Powell og það verði söknuður af honum. Hann segist hins vegar líka málkunnugur Rice og sér lítist ágætlega á hana. Ekki er talið að ráðherraskiptin í Washington breyti miklu hvað varðar samningaviðræður Íslands og Bandaríkjanna. Vilji Bandaríkjastjórnar um að skera verulega niður á Keflavíkurflugvelli liggur ljós fyrir og breytist ekki hvort sem það er Powell eða Rice sem situr í utanríkisráðherrastólnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×