Innlent

Enn umfangsmeira en ráðgert var

Orkuveita Reykjavíkur, en ekki Landsvirkjun, fær raforkussamning vegna enn frekari stækkunar Norðuráls, samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð verður í næstu viku. Stóriðjuframkvæmdir á Suðvesturhorni landsins verða umfangsmeiri en áður var ráðgert, samkvæmt henni. Í stað þess að Landsvirkjun ráðist í hina umdeildu Norðlingaölduveitu ætlar Orkuveitan að virkja enn meira á Hengilssvæðinu og hugsanlega bæta við annarri jarðgufuvirkjun á Hellisheiði. Mikil umsvif eru á Grundartanga þessa dagana en þar er stækkun Norðuráls komin á fulla ferð. Þær framkvæmdir, svo og smíði tveggja nýrra jarðgufuvirkjana, á Hellisheiði og á Reykjanesi, eru afleiðingar orkusamnings sem Norðurál gerði við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja snemma í vor vegna stækkunar álversins úr 90 þúsund tonnum upp í 180 þúsund tonn. Í morgun undirrituðu Landsvirkjun, Hitaveita Suðurnesja og Orkuveitan fjórtán milljarða króna lánasamninga við fjárfestingarbanka Evrópu vegna þeirra orkuframkvæmda sem þessu fylgja. Brátt þarf einnig að slá enn meiri lán í útlöndum því það er enn umfangsmeiri framkvæmdir í farvatninu. Í síðustu viku var tilkynnt um viðbótarsamkomulag Norðuráls, Orkuveitunnar og Hitaveitunnar sem leiðir til þess að haldið verður áfram að stækka álverksmiðjuna upp í 212 þúsund tonn og sennilega í 220 þúsund tonn með enn frekari orkuframkvæmdum, bæði á Suðurnesjum og Hengilssvæðinu. En þar með er ekki öll sagan sögð því samhliða undirritun þessara viðbótarsamninga í næstu viku munu Norðurál og Orkuveita Reykjavíkur undirrita viljayfirlýsingu um 50 megavatta orkusölu vegna stækkunar upp í 260 þúsund tonn, sem Norðurál vill ráðast í sem fyrst. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar, segir að verið sé að skoða nokkra möguleika á því hvernig útvega megi frekari orku. Í fyrsta lagi sé mögulegt að stækka Nesjavallarvirkjun, einnig megi nýta betur orkuna í Hellisheiðarvirkjun og loks sé verið að skoða nýtt svæði á Heillisheiðinni. Áður hafði verið búist við að Norðurál myndi semja um þessi viðbótarorkukaup við Landsvirkjun sem hefði þýtt framkvæmdir við Norðlingaölduveitu, sunnan Þjórsárvera. Þessi niðurstaða sem nú stefnir í felur í sér að bið verður á framkvæmdum við Norðlingaalda en hjá Orkuveitu Reykjavíkur þurfa menn að taka á við enn meiri uppbyggingu en áður var ráðgert. Guðmundur segir uppbygginguna hraðari en gert hafi verið ráð fyrir og mjög mikil bjartsýni ríki varðandi stækkunina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×