Innlent

Vilja fá dómi hnekkt

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hyggst freista þess að fá hnekkt fyrir Hæstarétti þeim dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem heimilar fimm manna fjölskyldu að eiga lögheimili í sumarbústað. Oddvitinn segir slíkt ekki ganga upp við núverandi aðstæður. Það er ekki svo að Bláskógabyggð vilji ekki fjölga íbúum sveitarfélagsins og fá þannig auknar útsvarstekjur, segir Sveinn Sæland oddviti. Kröfurnar sem gerðar eru til þjónustu sveitarfélagsins við sumarhúsahverfi séu einfaldlega allt aðrar og meiri en til þjónustu við venjuleg íbúðahverfi. Hann nefnir sem dæmi að ef sumarbústaðir yrðu viðurkennt lögheimili fjölskyldna þýddi það að byggja yrði upp allt öðru vísi og betri vegi að frístundabyggðum, tryggja þyrfti snjómokstur, sveitarfélagið yrði að útvega kalt vatn og annast frárennslismál, það yrði einnig að sjá um skólaakstur. Þetta segir oddvitinn ekki ganga upp við núverandi aðstæður. Bláskógabyggð hyggst því ekki una þeim dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær sem heimilaði fimm manna fjölskyldu að skrá lögheimili sitt í sumarbústað sínum í Laugarási. Sveitarfélagið hafði synjað börnunum um skólavist í grunnskóla byggðarinnar þar sem fjölskyldan taldist ekki eiga lögheimili í sumarbústaðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×