Innlent

Fullnaðarsigur í Sólbaksmáli

"Við náðum fullnaðarsigri," segir Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, en málið sem Sjómannasambandið höfðaði fyrir Félagsdómi gegn Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf. vegna ráðningarsamninga við skipverja hefur verið fellt niður. "Útgerðarfélagið breytti ráðningarsamningum eftir að málinu var stefnt fyrir dóm þannig að þeir eru fyrir innan lágmarkssamninga og allt tekið burt sem sneri að fjórðu grein laga um Stéttarfélög og vinnudeilur þar sem mönnum var gert að standa utan stéttarfélaga," sagði hann og bætti við að þar sem útgerðin hafi með þessum hætti viðurkennt brot sitt hafi þótt óþarfi að dæma sérstaklega um málið. "Í nýjum ráðningarsamningum sem undirritaðir voru 26. október var allt dregið til baka nema hafnarfríið. Í framhaldinu fór hann inn í samninginn sem við undirrituðum við útgerðina þann þrítugasta, en þar er tekið á hafnarfríunum." Í yfirlýsingu útgerðarfélagsins og áhafnar Sólbaks er því hafnað að lög hafi verið brotin og bent á að grundvallaratriði standi óhögguð. "Skipverjar standa utan stéttarfélaga og útgerðarfélagið er utan samtaka atvinnurekenda og ákvæði samningsins um hafnarfrí stendur óhaggað," segir þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×