Innlent

Gæti náð láglendi á hálftíma

Stór hluti láglendis á milli Eyjafjalla og Þjórsár færi undir vatn ef þar yrði jökulhlaup í líkingu við það sem varð fyrir tólf hundruð árum í Markarfljóti. Hættumat vegna eldgosa í Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli sýnir að hlaup úr hlíðum jöklanna gæti náð láglendi á innan við hálftíma. Hafist var handa við gerð hættumatsins í fyrra en nýjar upplýsingar um stærri hlaup niður markarfljótsgljúfur eftir lok ísaldar auk vaxandi skjálftavirkni í suðvestanverðum mýrdalsjökli voru meðal ástæðna þess. Stærð þessara jökulhlaupa var slík að þau flæddu yfir stóran hluta flatlendis á milli Eyjafjalla og Þjórsár. Rennslið var á milli hundrað þúsund rúmetrar á sekúndu og allt uppí þrjúhundruð þúsund rúmmetra. Stóru hlaupin urðu á fimm til sjöhundruð ára fresti, en talið er að tólf hundruð ár séu frá því síðasta. Við núverandi aðstæður myndi hlaupið breiða úr sér á laáglendinu yfir landeyjar og ná allt til Þykkvabæjar í vestri. Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra segir að færi allt á versta veg yrði að flytja yfir 300 manns og reiknað væri með að það yrði flutt til Hellu ef svo bæri undir, enda liggi Hella hærra og ólíklegt sé að hlaupið næði þangað. Niðurstöðurnar voru kynntar á opnum fundum sem almannavarnanefnd Rangárvallasýslu boðaði til í dag. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor, bendir á að engin svona atburður hafi gerst síðan land byggðist. Magnús Tumi segir að ekki þurfi að líða meira en klukkutími frá því að gos hæfist uns hlaup væri komið að jökuljaðri. Hins vegar líði tveir og hálfur tími til viðbótar uns hlaupið næði efstu byggðum og mun lengri tími uns það næði alla leið að Þykkvabæ. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra segir að sér sýnist að hægt væri að bjarga öllum mannslífum sem væru í hættu ef það versta gerðist, en líkurnar á því væru ekki miklar. Hins vegar þurfi áætlanirnar að vera í lagi og að því sé verið að vinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×