Innlent

Segist ekki hafa verið með

Þórólfur Árnason, borgarstjóri og fyrrverandi markaðsstjóri Olíufélagsins ESSO, var með í samráði olíufélaganna vegna útboðs á olíusölu. Þórólfur segist ekki hafa vitað um náið samstarf forstjóra olíufélaganna. Þórólfur Árnason, borgarstjóri, var markaðsstjóri Olíufélagsins ESSO, í fjögur og hálft ár, eða frá árinu 1993 til 1998. Í skýrslu Samkeppnisráðs er bent á tölvupóst Þórólfs til forstjóra Olíufélagsins vegna útboða árið 1996, en þar segir Þórólfur: "Eftir þreifingar Skeljungsmanna um sameiginlega stefnu í útboðsmálum bað ég um tillögu frá þeim, sem forstjórar geta rætt. Friðrik Stefánsson hjá Skeljungi er ekki tilbúinn með tillögu, hann ræddi við Kristinn Björnsson sem vill að forstjórar hittist fyrst til að ræða hvort grundvöllur sé." Í öðrum tölvupósti til forstjórans um valkosti vegna stefnu í útboðunum segir Þórólfur: "Tvær leiðir: Stinga djúpt og ná viðskiptunum, eiga þá á hættu að missa framlegð niður ef verð fréttist. Hin leiðin að skoða stærri dæmi í samhengi. Ákveða þarf á næsta fundi verðpólitík miðað við þessar tvær leiðir og eiga báðar í vasanum fram á síðustu stund." Þórólfur segist ekki hafa ákveðið neitt um verðlagningu eldsneytis, en hann hafi hins vegar hjálpað til við að upplýsa um málið og sé því ánægður að rannsókninni hafi fleytt svo vel fram. Hann segir að lagt sé upp með það nú að Olíufélögin hætti með samrekstur bensínstöðva, sem hafi verið mjög mikil rót að samráðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×