Innlent

Ólíklegt að mannvirki skemmist

Hlaup er hafið í Skeiðará. Búist er við að það nái hámarki á næstu tveimur sólarhringum og verði stærra en hlaupin sem komið hafa á undanförnum árum. Fyrstu merki um að hlaupið sáust í gær á jarðskjálftamælum sem sýndu óróa við Grímsvötn í Vatnajökli en þaðan kemur hlaupvatnið. Vatnamælingamenn frá Orkustofnun eru á leið austur á Skeiðarársand en í þeirra hópi er Sverrir Elefsen. Hann segir skjálfta sem hafi mælst í jöklinum benda til þess að vatn sé farið að renna úr Grímsvötnum. Búist sé við því að rennslið nái hámarki innan eins til tveggja sólarhringa og verði heldur meira en rennslið sem verið hefur í litlum hlaupum. Ólíklegt sé þó að skemmdir verði á mannvirkjum. Grímsvötn eru ein virkasta eldstöð Íslands og telja vísindamenn að hún sé komin á tíma og þar geti gosið hvenær sem er. Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings hafa þó engin merki um eldsumbrot sést í tengslum við hlaupið sem nú er að hefjast. Síðasta Skeiðarárhlaup var fyrir tveimur og hálfu ári, vorið 2002, en Sverrir Elefsen segir að það hafi verið lítið. Hann segir hlaupin hafa verið mjög óregluleg undanfarið, en þau hafi verið á um það bil árs fresti fyrir árið 2002.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×