Innlent

Borgin mismunar börnum

Reykjavíkurborg mismunar fötluðum börnum með því að greiða einungis úr neyð einhverfra barna í verkfalli kennara, segir Ingibjörg Gyða Guðrúnardóttir. Dóttir Ingibjargar, Ylfa, er átta ára stúlka með hreyfi- og þroskahömlun sem gengur í almennan grunnskóla: "Skólastjóri Ylfu hefur sótt um undanþágu frá byrjun verkfalls. Fyrst fyrir tvo kennara, síðan fyrir alla sem koma að hennar námi. Undanþága hefur ekki fengist." Ingibjörg segir það skólastjóra að meta hvort neyðarástand ríki. Með því að Reykjavíkurborg greiði eingöngu götu einhverfra líti þeir fram hjá mati fagaðila á neyðarástandi. Stefán Jón Hafstein formaður fræðsluráðs Reykjavíkur segir mikla vinnu lagða í að leysa mál allra fatlaðra barna. Fyrst hafi verið reynt að leysa vanda einhverfra en ekki tekist sem skyldi. Það hafi komið á óvart: "Við bíðum með krosslagðar fingur. Allt okkar besta fólk vinnur í málum fatlaðra um þessar mundir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×