Innlent

Skaupinu sleppt

Fjöldi Íslendinga kýs að verja áramótunum í útlöndum, fjarri áramótabrennum og skaupi, að ógleymdum ávörpum helstu höfðingja þjóðarinnar. Það er enda háttur sumra að vilja frið og ró fremur en skarkala eða slark, þó vissulega geti glaumur og gleði ríkt í öðrum löndum en á Íslandi. Margir dvelja á Kanaríeyjum yfir áramót og hafa gert um árabil. Flatmagar fólk þá í sólinni ef þannig viðrar og hugsar sjálfsagt til vina og ættingja sem oftar en ekki þurfa að klæða af sér kuldann á Klakanum. Flestar ferðaskrifstofur bjóða upp á ferðir til Kanaríeyja um áramót og hefur þegar selst upp í margar þeirra. Á vegum Heimsferða er boðið upp á áramótaferð til Zurich í Sviss en borgin sú ku vea annáluð fyrir létta og skemmtilega áramótastemningu og tilkomumikla flugeldasýningu. Tómas J. Gestsson, markaðsstjóri Heimsferða, sagði viðtökurnar afar góðar en sjálfur hefur hann ekki gert upp við sig hvort hann verji áramótunum að þessu sinni í Zurich eða á Kanaríeyjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×