Innlent

Netumferð tryggari á eftir

Netumferð innanlands á ekki að truflast þó svo að samband falli niður við umheiminn eftir að settur var upp speglunarpunktur fyrir einn af rótarnafnaþjónum netsins við skiptipunkt íslenskrar netumferðar (RIX - Reykjavík Internet Exchange) í Tæknigarði við Dunhaga í Reykjavík síðasta fimmtudag. Speglaður var einn af þrettán rótarnafnaþjónum netsins, en þeir sjá um að vísa uppflettingum léna rétta leið. "Hér áður kom stundum fyrir að umferð um sæstreng truflaðist, en svo hefur líka komið upp að einstakar netveitur hafi misst samband við útlönd vegna einhverra bilana. Nú halda viðskiptavinir þeirra sambandi við íslenskar vefsíður," segir Maríus Ólafsson hjá Interneti á Íslandi. Ólíklegra er þó nú en áður að umferð um sæstreng falli niður eftir að Farice-sæstrengurinn bættist við CANTAT-3 strenginn. "Svo batnar líka viðbragðstíminn á netinu, fer úr 80 millisekúndum niður í tvær, en það er svo sem ekkert sem almennir netnotendur verða varir við," bætti Maríus við. Að uppsetningu speglunareintaks rótarnafnaþjónsins stóðu RIPE NCC (Réseaux IP Européens Network Coordination Centre) og Internet á Íslandi hf. (ISNIC).


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×