Innlent

Tveir létust í bílveltu

Íslendingur og Brasilíumaður létust í bílslysi í Þjórsárdal í morgun. Jeppabifreið sem þeir voru í ásamt fimm öðrum valt á veginum og gjöreyðilagðist. Sjö manns - fjórir Bandaríkjamenn, einn Breti, einn Brasilíumaður og íslenskur ökumaður - lögðu af stað úr Reykjavík klukkan 9 í morgun. Ferðinni var heitið austur í Landmannalaugar þar sem hópurinn hugðist eyða deginum og snúa til baka að kvöldi. Á ellefta tímanum var hópurinn á ferð í Þjórsárdal á milli Skriðufells og Búrfellsvirkjunar þegar ógæfan dundi yfir. Þorgrímur Óli Sigurðsson, lögreglufulltrúi á Selfossi, segir að svo virðist sem ökumaðurinn hafi misst bílinn út í vegkant sem varð til þess að hann missti stjórn á honum og bifreiðin svo oltið nokkrar veltur á veginum. Bíllinn var gjörónýtur eftir slysið. Afturhásingin fór af og tveir hjólbarðanna. Tveir lögreglubílar frá Selfossi, tveir sjúkrabílar og einn slökkviliðsbíll komu fljótlega á vettvang. Þá voru tveir látnir - íslenskur karl á þrítugsaldri sem ók jeppanum og brasilískur karl á fertugsaldri. Hinir fimm, Bandaríkjamennirnir og Bretinn, voru á aldrinum 18 ára til sextugs, tvær konur og þrír karlar. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til aðstoðar og flutti hún tvo farþeganna á Landspítalann í Fossvogi. Hún lenti þar með þá laust fyrir klukkan eitt í dag. Hinir þrír voru fluttir með sjúkrabílum á sama stað. Einn farþeganna fór í aðgerð í dag vegna alvarlegra áverka og er honum nú haldið sofandi í öndunarvél. Meiðsl annarra farþega eru ekki alvarleg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×