Innlent

Stal tölvum, peningum og farsímum

Töluverðum verðmætum var stolið í þremur innbrotum í vesturbæ Kópavogs sem lögreglu barst tilkynning um á mánudagsmorgun. Brotist var inn á tvö heimili og eina bifreið og telur lögregla að sami einstaklingur hafi verið þar á ferð. Á einum stað var fólk heima við og kom styggð á þjófinn sem forðaði sér en fólkið kallaði til lögreglu. Þjófurinn hafði upp úr krafsinu tugi þúsunda í peningum sem geymdir voru í bifreiðinni, auk nokkurra farsíma, tösku með greiðslukortum og vegabréfum og tveggja fartölva. Fartölvurnar fann þjófurinn í kjallaraíbúð þar sem hann fór inn um svalahurð. Lögreglan í Kópavogi hvetur fólk til að vera á varðbergi gagnvart þjófum og huga vel að opnum gluggum og þess háttar. Málið er í rannsókn og segist lögregla hafa ákveðnar vísbendingar um hver kunni að hafa verið þarna að verki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×