Menning

Í fjallasölum austurrísku Alpanna

Skíðagöngur í fjallasölum austurrísku Alpanna eru meðal þess sem Ferðaþjónusta bænda er að skipuleggja á útmánuðum. Slíkt telst til tíðinda hér á landi. Þetta er vikuferð og stendur frá 5. til 12. mars. Flogið er til Verona á Ítalíu og ekið þaðan til bæjarins Seefeld, sem er í hjarta fjallahéraðsins Týról. Þar er fyrsta flokks skíðagöngusvæði og gist verður á fjögurra stjarna hóteli sem er þekkt fyrir góðan mat og lipra þjónustu. Íris Marelsdóttir, yfirsjúkraþjálfari á Reykjalundi, er ráðin fararstjóri og er þegar farin að hlakka til. En verða menn ekki að vera flinkir á gönguskíðum til að fylgja henn eftir? "Nei, ferðin hentar bæði byrjendum og vönum því við munum skipta liði og fara bæði lengri og styttri ferðir. Hugsanlega verður svo hist í hádeginu," segir hún.

Hægt verður að leigja skíði á staðnum en þeir sem eiga skíði ættu að taka þau með, að sögn Írisar. Hún segir ávallt verða byrjað á upphitunarhraða, síðan aukið í, hægt á síðdegis og endað á góðum teygjum. "Þetta verður heilsubótarferð við allra hæfi," fullyrðir hún og upplýsir að ólympíusundlaug sé við hliðina á hótelinu, með gufubaði og hvíldarherbergi. "Ólympíuleikarnir í norrænum greinum voru haldnir á þessu svæði 1964 og 1976 og heimsmeistarakeppnin árið 1999. Við munum njóta þess þegar við komum heim af skíðunum að leggjast í laugina. Ég held það finnist varla hollari blanda af hreyfingu en gönguskíði og sund saman," segir Íris. Spurð í lokin hvort hún haldi að Íslendingar hafi nægilegan áhuga á gönguskíðaíþróttinni til að hægt sé að fylla svona ferð svarar hún: "Það er þá kominn tími til að efla þann áhuga".

Ferðin kostar 110.000 krónur á manninn miðað við að tveir séu í herbergi. Innifalið er hálft fæði, það er morgunmatur, eftirmiðdagskaffi og kvöldmatur, aðgangur að öllum gönguskíðabrautum og fleira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×