Innlent

Börn Sri og frændsystkin styrkt

Þrjú börn Sri Rahmawati og þrjú fóstursystkin þeirra fengu hvert og eitt styrktarframlag að upphæð 100 þúsund krónur í gær. Það var Ingibjörg Pálmadóttir framkvæmdastjóri fyrir hönd Velferðarsjóðs barna, sem afhenti börnunum sparisjóðsbækur með upphæðinni. "Við erum mjög þakklát fyrir þann samhug sem við höfum fundið," sagði Nana Mardina móðir og móðursystir barnahópsins við afhendinguna í gær. Hún þakkaði jafnframt fyrir þá dýrmætu aðstoð sem fjölskyldan hefði fengið. Í máli Ingibjargar kom fram að sama upphæð yrði lögð inn á bækur barnanna ár hvert næstu þrjú árin, að minnsta kosti. Síðan yrði málið endurskoðað í heild sinni. Þessir fjármunir væru ætlaðir til að börnin ættu þess kost að stunda íþróttir, tómstundir og annað það sem börn þörfnuðust. Þessi átta manna fjölskylda býr í mjög lítilli íbúð, en börnin eru á aldrinum tveggja til fimmtán ára. Yfir stendur fjársöfnun til styrktar þeim, sem velunnarar fjölskyldunnar standa fyrir, svo hún megi komast í viðunandi húsnæði. Þá verður sérstakur söfnunardagur 2. október. Númer söfnunarreikningsins er 0139-05-64466 á kennitölu 130147-4109.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×