Innlent

Ástþór listamaður segir Mikael

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi mætti með körfubíl að ritstjórn DV í dag til að geta legið á gluggunum hjá blaðamönnunum og ljósmyndað þá í bak og fyrir. Þeir urðu heldur betur hissa blaðamennirnir þegar körfubíllinn renndi upp að ritstjórnarskrifstofunum. Í körfunni stóð Ástþór Magnússon, vopnaður stórri ljósmyndavél, og lét síðan hífa sig upp að gluggum hússins. Ástþór, sem segist reyndar vera með meistararéttindi í ljósmyndun, hóf síðan að mynda í gríð og erg í gegnum rúðurnar. Hann beindi myndavélinni sérstaklega að blaðamönnum DV en þeir létu sér fátt um finnast, létu sem þeir hreinlega sæju hann ekki. Ástþór segist með þessu athæfi vera að mótmæla myndasyrpu sem DV birti síðastliðinn laugardag en hann segir blaðið með henni hafa ráðist inn á sitt einkalíf. Í dag svaraði Ástþór sem sé í sömu mynt en hann hefur reyndar einnig síðustu daga myndað í gegnum glugga á heimilum ritstjóra blaðsins. Hann segist gjarnan vilja fá umfjöllun um friðarboðskap sinn en vill að einkalíf sitt sé látið í friði. Mikael Torfason, ritstjóri DV, segir mun vera á því að mynda fólk í gegnum glugga á húsi eða bílrúðu. Myndasyrpa blaðsins af Ástþóri hafi verið mjög saklaus þar sem hann var keyrandi, gangandi úti og talandi í símann. Mikael segir athæfi Ástþórs í dag hafa verið gjörning, enda sé hann listamaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×