Innlent

Gatnamótin söltuð í borgarstjórn

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur saltaði mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í dag og markaði þá stefnu í staðinn að betrumbæta ljósastýrð gatnamót með fleiri akreinum.  Lengi hefur verið rætt um að gera gatnamótin mislæg, og jafnvel á þremur hæðum, þannig að frítt rennsli væri á báðum götunum. En nú síðdegis tók meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur af skarið þegar felld var tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Frjálslyndra og óháðra um að undirbúa mislæg gatnamót.  Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, segir tvö aðal rökin fyrir því að ráðast ekki gerð gatnamótanna núna séu annars vegar umhverfisáhrifin og hins vegar hinn gríðarlegi kostnaður sem þeim fylgja. Þess í stað vill meirihlutinn að gatnamótin verði áfram ljósastýrð en betrumbætt með fjölgun akreina. Sú lausn þýði hóflegan kostnað og taki mun skemmri tíma. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, segir að hugsun R-listans sé að takmarka bílaumferð um þessar götur. Það sé hreint út sagt óskiljanlegt. Bargarbót verði gerð á þessu þegar nýr meirihluti taki við. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×