Innlent

Aðför eða framför?

Sjómannasambandið sakar útgerðarfélagið Brim um aðför að stéttarfélögunum með því að stofna rekstrarfélag um togarann Sólbak. Framkvæmdastjóri Brims segir kerfið vera framför. Rekstrarfélag Sólbaks EA stendur utan Landssambands íslenskra útvegsmanna og utan stéttarfélaga sjómanna. Færri verða í áhöfn en á samskonar skipum og samkomulag er um að ekki verði lengur 30 klukkustunda stopp eftir hverja veiðiferð, heldur haldið á veiðar eftir löndun. Hver sjómaður fær sömu laun fyrir hvern dag úti á sjó, eitt uppgjör verður og mánaðarleg kauptrygging í stað launa á vikufresti. Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Brims, segir skipverja sátta og fyrirkomulagið til hagsbóta fyrir alla en Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, telur þetta lögbrot og sakar útgerðarfélagið um að hóta sjómönnum og þvinga þá til samninga. Sævar segir útgerðarmenn sem hagi sér svona sjá stundarhagsmuni í samningunum. Framtíðarhagsmunirnir séu aftur á móti engir. Hann segir ekki við það búið að stríðsástand ríki alla daga, þ.e. að allir semji við alla og engin friðarskylda. Launa- og réttindabarátta sjómanna fer aftur um áratugi í þessu tilviki að sögn Sævars. Guðmundur segir enga breytingu verða á kjörum sjómanna við þessa samninga. Það eina sem breytist sé að sjómenn þurfi ekki að hanga um borð í 30 klukkustundir eftir hverja veiðiferð heldur geti þeir róið, í viku eða hálfan mánuð í einu, og fengið svo vikufrí. Þetta sé því framför en ekki afturför.     Myndin er af Sólbaki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×