Innlent

Hótel Skaftafell opnað að nýju

Hótel Skaftafell að Freysnesi hefur verið opnað að nýju eftir veðurofsann sem gekk þar yfir í síðustu viku og olli tugmilljónatjóni. Margir hafa lagt hönd á plóginn og aðstoðað við að koma hótelinu aftur í stand og eru eigendur þess bjartsýnir á framhaldið. Í veðurofsanum sem gekk yfir Suðurland í síðustu viku fauk þak af 300 fermetra álmu hótelsins í Freysnesi og lenti á tengibyggingu, annarri álmu og bílum. Um fjörutíu manns gistu á hótelinu þegar þetta gerðist en engan sakaði þrátt fyrir miklar skemmdir á hótelinu. Hótelið var opnað aftur í fyrradag og gista þar nú um tuttugu manns, að mestu erlendir ferðamenn. Anna María Ragnarsdóttir, sem ásamt eiginmanni sínum, Jóni Benediktssyni, er eigandi Hótels Skaftafells, segir að um leið og veðrið hafi gengið niður hafi hreinsunarstarf hafist. Verið sé að negla þakið aftur á og ljúka við að hreinsa glerbrot og annað brak á svæðinu. Hún segir skemmdirnar miklar og ekki sé ljóst á þessari stundu hvenær hægt verði að nota aftur álmuna sem færðist úr stað á grunninum.  Hreinsunarstarfið gengur vel að sögn Önnu þar sem þau njóti aðstoðar margra. Hún segir óljóst að svo stöddu hvenær hægt verði að taka þann hluta hótelsins sem skemmdist aftur í notkun. Þau hjónin eru hins vegar mjög bjartsýn á framtíðina, þrátt fyrir ósköpin. Hægt er að hlusta á viðtal við Önnu Maríu með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×