Innlent

Ráðherrann með hreina samvisku

Félagsmálaráðherra óttast ekki að þurfa að greiða Helgu Jónsdóttur borgarritara skaðabætur vegna þess að hún var ekki skipuð ráðuneytisstjóri, enda hafi hæfasti umsækjandinn verið ráðinn og málefnaleg rök færð fyrir því. Helga ætlar að leita álits Umboðsmanns Alþingis á ráðningu í embætti ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins. Helga var meðal þeirra þriggja sem talin voru hæfust, auk Ragnhildar Arnljótsdóttur sem fékk stöðuna og Hermanns Sæmundssonar, setts ráðuneytisstjóra. Helga gefur lítið fyrir umbeðna greinargerð ráðherra um stöðuveitinguna, sagði engan rökstuðning fyrir valinu þar að finna og gagnrýndi að greinargerðin væri ekki studd gögnum. Árni Magnússon félagsmálaráðherra segir að færð séu mjög málefnaleg rök fyrir því, á fjórum þéttskrifuðum blaðsíðum, hvers vegna Ragnhildur var ráðin. Hann telur ekki að ráðuneytið eigi eftir að þurfa að greiða Helgu skaðabætur vegna þess að hún var ekki skipuð ráðuneytisstjóri, enda hafi hæfasti umsækjandinn verið ráðinn. Árni segir sjálfsagt að málið gangi sinn gang innan stjórnsýslunnar en bendir á að skipan ráðuneytisstjórans hafi þegar farið fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×