Innlent

Þjófur sérhæfir sig í Nissan Sunny

Ívar Erlendsson, nemi á tónlistarbraut í Fjölbrautaskóli Vesturlands, varð heldur hissa þegar hann hugðist fara í skólann í gærmorgun. Nissan Sunny bifreið hans var horfin. Aðalvarðstjóri lögreglunnar í Reykjavík segir algengt að Nissan Sunny bílum sé stolið. Fjögurra sé enn saknað frá 19. ágúst. Ívar sem býr í Borgarnesi hefur hann reiknað út, eftir samtöl við vini og vandamenn, að bílnum hafi verið stolið rétt um átta leytið í gærmorgun. Aðalvarðstjóri lögreglunnar í Reykjavík segir stuld á Nissan Sunny bílum hafa verið áberandi undanfarið. Það sé sennilegt að einhver hafi sérhæft sig í bíltegundinni og náð góðum tökum á henni. Stolnir bílar finnist yfirleitt tiltölulega fljótt og fátítt sé að miklar skemmdir séu unnar á þeim. Ívar hefur átt bílinn í eitt ár og var að klára að borga af honum. "Þá er honum stolið! Ég er í gítarnámi og dýrka að hlusta á tónlist og er því með mjög góðar græjur í bílnum og um 60 geisladiska og bassabox sem ég smíðaði sjálfur. Ég er ansi hræddur um að hann sé núna í bænum í einhverjum bílskúr í niðurrifi," segir Ívar. Aðalvarðstjóri segir lögregluna í Reykjavík hafa ákveðinn mann grunaðan um stuld á bíltegundinni og málið sé í rannsókn. Lögreglan í Borgarnesi hefur lýst eftir bílnum um allt land og skoðar nánar vísbendingar sem henni hafa borist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×