Innlent

Þrjú eldfjöll sýna merki um virkni

Þrjú af virkustu eldfjöllum Íslands, Hekla, Katla og Grímsvötn, sýna nú öll ótvíræð merki um að eldgos sé í uppsiglingu. Kvikuþrýstingur í Heklu er kominn upp undir það sem hann var fyrir síðasta gos. Margir hafa giskað á að Katla yrði næsta eldfjall Íslands til að gjósa en vísindamenn hafa undanfarin ár sérstaklega beint sjónum að henni. Á skjálftamælum Raunvísindadeildar Háskóla Íslands mátti til að mynda sjá óróa undir Kötlu fyrr í dag. Grímsvötn, sem síðast gusu fyrir sex árum, hafa hins vegar einnig verið að sýna merki sem helst eru talin forboðar eldsumbrota. Páll Einarsson, prófessor segir að Katla hafi byrjað að sýna þessi merki árið 1999 og Grímsvötn hafi verið að sækja í sig veðrið og kvikuþrýstingur sé hærri en fyrir síðasta gos. Þrýstingur sé því nægur til að koma upp gosi ef svo ber undir. Þá hafi verið samfelld skjálftavirkni í 3 ár við Kötlu, aðallega vestan við Kötluöskjuna í svokallaðri Boðabungu. Páll segir að þetta sé mjög óvenjuleg virkni í hvaða eldfjalli sem er í heiminum. Nú er sjálf Hekla einnig farin að láta vita af sér með vaxandi kvikuþrýstingi. Það kemur mörgum á óvart svo skömmu eftir síðasta Heklugos fyrir fjórum árum. Páll segir að hún hafi verið óvenju virk síðustu áratugi og að þrýstingur þar sem kominn upp undir það sem hann var í síðasta gosi. Því sé full ástæða til að hafa auga með Heklu líka. Hann segir þó að þótt eldfjöllin gætu gosið hvenær sem er sé ekki hægt að draga ályktun um að gosin séu yfirvofandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×