Innlent

Leikmennirnir búnir að ná sér

Tæpur helmingur liðsmanna íslenska ungmennalandsliðsins sem fékk heiftarlega magakveisu hefur náð sér en liðið leikur við Ungverja síðdegis í dag. Staðfest er að kveisan var af völdum svokallaðrar NORO-veiru sem hefur verið algeng hér á landi í sumar.   Á föstudagskvöld, eftir að íslenska ungmennalandsliðið lagði Búlgaríu að velli, fengu sex leikmenn liðsins heiftarlega í magann. Þá um kvöldið var farið á veitingastað og lék upphaflega grunur á að piltarnir hefðu fengið matareitrun. Stuttu seinna veiktust fleiri og lá alls tæpur helmingur liðsins fyrir vegna uppkasta og niðurgangs. Sýni voru send í ræktun og er niðurstaðan sú að sögn Haraldar Briem sóttvarnarlæknis að kveisan er af völdum svokallaðrar NORO veiru, eða Norwalk veiru eins og hún er stundum kölluð. Kveisan er bráðsmitandi og berst milli manna með andardrætti og snertingu. Meðal annars hefur veiran herjað á hjúkrunarstofnanir í sumar. Ferðalagið til Ungverjalands var langt og strangt fyrir veika liðsmenn en þeir eru nú allir búnir að ná sér og tilbúnir í slaginn fyrir leikinn við Ungverja sem hefst klukkan hálf þrjú í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×