Innlent

Fyrst laun, svo tilboð

Engin tilboð verða lögð fram til lausnar kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga fyrr en eftir að rætt hefur verið um launin. Það verður ekki gert fyrr en á fimmtudaginn þegar ellefu dagar eru til boðaðs verkfalls. Þann tuttugasta þessa mánaðar verða 45 þúsund grunnskólabörn send heim úr skólanum um leið og verkfall grunnskólakennara hefst - hafi ekki samist fyrir þann tíma. Kennarar vilja 250 þúsund króna byrjunarlaun fyrir umsjónarkennara eldri en þrítugt, fækkun í bekkjum og minni kennsluskyldu. Þetta telja sveitarfélögin allt of háar kröfur en formenn samninganefndanna beggja vegna borðsins eru tiltölulega ánægðir með viðræðurnar eins og þær hafa gengið fyrir sig hingað til og segja þær málefnalegar. Síðustu vikur hafa engin tilboð gengið milli kennara og fulltrúa sveitarfélaga en ríkissáttasemjari hefur sett upp viðræðuáætlun sem gengur út á að á fimmtudag verði byrjað að ræða launaupphæðir. Á föstudag hófust viðræður um kennsluskyldu og halda þær viðræður áfram á óformlegum fundi hjá ríkissáttasemjara sem hefst klukkan eitt. Ekki er gert ráð fyrir að farið verði að ræða nein tilboð fyrr en búið er að ræða launaliðinn, og það gæti þá verið í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×