Menning

Hjartað slær í Kína

Guðrún Ólafsdóttir landfræðingur og mannfræðingur hlýtur að teljast með víðförlari Íslendingum því nánast má segja að hún hafi verið á faraldsfæti frá því í frumbernsku. Hún er nú á 74. aldursári og alls ekki sest í helgan stein. Í sumar fór hún í ævinýraferð til Kenýa og staldraði ekki við hér heima nema í viku áður en hún lagði í aðra ævintýraferð, og þá til Japans. Guðrún segir að flökkueðlið geti hún rakið aftur í æsku, en hún fæddist í Kína þar sem faðir hennar var kristniboði, og bjó þar til átta ára aldurs.

"Þar var siður að fara í sumarbústað á hverju sumri, sem var heilmikið ferðalag. Við fórum upp í fjöllin og dvöldumst þar í mánuð sem var ákaflega skemmtilegt og er mér enn í barnsminni. Mér er líka minnisstæð ferðin þegar við fluttum heim til Íslands en þá sigldum við á fljótabát niður til borgarinnar Hankow og þaðan niður Jangtzefljótið til Sjanghæ. Svo var siglt til Bremen. Þetta ferðalag tók tæpa þrjá mánuði," segir Guðrún. "Ég var sem betur fer orðin það gömul að ég man vel eftir þessu."

Guðrún kunni enga íslensku þegar hún kom heim til Íslands, en talaði kínversku og norsku en móðir hennar var norsk. "Pabbi kenndi mér fyrstu tvö íslensku orðin á leiðinni heim, sem voru piltur og stúlka," segir hún hlæjandi. Nú talar Guðrún ekki kínverskuna lengur en er engu að síður heilluð af málinu og kínverskri menningu og hefur heimsótt bernskuslóðirnar þrisvar eftir að hún flutti heim. Hún segir breytingarnar gríðarlegar, uxakerrur og fljótabátar hafa vikið fyrir bílum og lestum og byggingar séu nú með vestrænu sniði.

Guðrún fór í nám til Noregs og þar fékk hún áfram útrás fyrir ferðabakteríuna, því hún ferðaðist á puttanum um Evrópu á sumrin.

"Stúdentar voru duglegir að ferðast á þessum árum, við þvældumst um Evrópu þvera og endilanga og bílstjórunum fannst við hálf geggjuð. En það gekk nú alltaf allt að óskum," segir Guðrún og er ekki viss um að hún færi af stað á puttanum núna þó að hún væri hálfri öld yngri.

Guðrún hefur heimsótt allar heimsins álfur nema Suður Ameríku og segist alls staðar heilluð af stöðum og mannlífi. "Það er svo stórkostlegt að upplifa framandi lönd og staði og kynnast spennandi menningu þjóðanna og ólíkum tungum."

Þrátt fyrir að Guðrún hafi gert svo víðreist standa bernskuslóðirnar í Kína upp úr þegar hún nefnir uppáhaldsstað. "Kína á sérstakan sess í hjarta mér og ég tengist því óútskýranlegum böndum. Noregur skipar líka stóran sess, það er mitt móðurland og þar á ég fjölskyldu og vini og svo er alltaf dýrðlegt að ferðast um Ísland. Mér finnst ég eiga rætur í þessum þremur löndum," segir Guðrún sem er strax farin að huga að næstu reisu sem verður trúlega til Noregs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×