Innlent

Með Alþingi í gíslingu

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar segja að nú sé möguleiki á að ná sátt í samfélaginu um fjölmiðlalög, ef undirbúningur þeirra verður unnin í samstarfi við alla. Formaður Samfylkingarinnar segir fráleitt að afnema málsskotsrétt forsetans, hann sé eina vörn borgaranna gegn ráðherraræðinu. Fyrstu viðbrögð stjórnarandstöðunnar við atburðum dagsins voru á þá leið að stórsigur hefði unnist, og ríkisstjórnin að sama skapi beðið afhroð. Gríðarlegt áfall fyrir hana, sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar, segir Davíð stóran í sniðum og hann sé jafnframt stórvirkur þegar hann leiki af sér. Steingrímur J. segir það vel ef nú væri hægt að vinna að undirbúningi fjölmiðlalaga á þverpólitískum grunni með þátttöku fagfólks. Össur Skarphéðinsson tók í sama streng, nú væri séð fyrir endann á deilunum í samfélaginu og grundvöllur að skapast að sátt. Össur segir þó að meiri sátt hefði orðið ef málið hefði verið látið ganga til enda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þó að sátt sé í sjónmáli segir Össur segir það þó lítið framlag til hennar ef reyna eigi að afnema rétt forsetans til að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hafi sýnt sig í þessu máli að málskotsréttur forsetans sé eina vörn borgara gegn ráðherraræðinu sem hafi tekið Alþingi í gíslingu undir sitjandi stjórn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×