Menning

Næturferð til Syðri-Straumfjarðar

Fyrir marga er Grænland afar spennandi og framandi land sem vel þess virði er að heimsækja. Landið er aðeins í seilingarfjarlægð frá Íslandi og því tilvalið fyrir þá sem þangað vilja komast í sumar að skella sér og njóta bjartra sumarnótta og miðnætursólar. Ferðaskrifstofan Iceland Excursions og Allrahanda býður í sumar upp á vikulegar ferðir til Grænlands og er flogið öll fimmtudagskvöld til 12. ágúst. "Við seljum í leiguflug hjá þýsku fyrirtæki sem er með fastar ferðir frá Þýskalandi um Ísland og þaðan til Grænlands og buðu þeir okkur að vera með til að fullnýta vélina. Þar sáum við gott tækifæri til að bjóða Íslendingum sem erlendum ferðamönnum sem hér eru staddir, að heimsækja Grænland. Þetta er stutt ferð, aðeins nokkrir klukkutímar en oft er þetta þó upphafið að annarri og lengri ferð sem farþegar fara þá í seinna meir. Fyrir þá sem vilja dvelja lengur bjóðum við einnig upp á vikudvöl á þessum sömu slóðum og þá er um að ræða sérsniðna dagskrá af öllu því besta sem Vestur-Grænland hefur upp á að bjóða," segir Þórir Garðarson, markaðsstjóri Iceland Excursions og Allrahanda.

Í síðustu viku fóru blaðamaður og ljósmyndari Fréttablaðsins ásamt fleiri farþegum til Kangerlussuaq í Syðri-Straumsfirði sem er á vesturströnd Grænlands. Flogið var frá Keflavík kl. 23 um kvöldið og komið aftur kl. 5 að morgni næsta dags. Þegar vélin tók á loft í Keflavík blasti Snæfellsjökullinn við í allri sinni dýrð með miðnætursólina í bakið. Flugið var hið þægilegasta og biðu sjálfsagt flestir um borð í ofvæni eftir að fljúga yfir sjálfan Grænlandsjökulinn. Því miður var skyggnið ekki sem best því það var bæði skýjað og mistur í lofti. Engu að síður var magnað að fljúga yfir jökulinn og horfa niður á ískalda og hrikalega jökulbreiðuna sem var óendanlega löng að sjá. Þegar nær dró lendingarstað endaði jökullinn og við tók nakið landslag, túndra með berum klöppum og steinum. Í Syðri-Straumsfirði var gola, skýjað og tíu stiga hiti en því miður sást engin miðnætursól. Farþegum var ekið um svæðið í rútu ásamt leiðsögumanninum Hans, sem fræddi farþegana um svæðið. Keyrt var upp í hlíðina fyrir ofan byggðina þar sem nokkur sauðnaut sáust í fjarska en þau eru algeng á þessum slóðum. Útsýnið var fallegt og sérstaklega út fjörðinn sem er sá næst lengsti á Grænlandi, um 170 kílómetrar. Eftir þessa stuttu dvöl var síðan haldið aftur af stað heim og lent í Keflavík um fimmleytið um morguninn. Þótt stoppið á Grænlandi hafi verið stutt í þetta skiptið var ferðin hin ánægjulegasta og óhætt að segja að flestir farþeganna hafi skemmt sér vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×