Innlent

Íslenskumælandi talgervill í síma

Í sumarlok er von á íslenskumælandi talgervli í farsíma sem gagnast getur blindum og sjónskertum. Með hjálp búnaðarins geta blindir og sjónskertir þá nýtt sér til fulls þá kosti sem farsímatæknin hefur í för með sér, svo sem SMS eða MMS smáskilaboð sem síminn les þá upphátt fyrir notandann. Hartmann Kr. Guðmundsson, forstöðumaður Örtækni, segir að gengið hafi verið frá samningi við spænska fyrirtækið Code Factory sl. þriðjudag og að til standi að taka í notkun Mobilespeak-talhugbúnað fyrirtækisins. Að baki Örtækni við samningagerðina standa svo Öryrkjabandalag Íslands og Blindrafélagið. "Við höfum skipt við annað fyrirtæki, en hættum við að taka inn íslenskan búnað frá þeim vegna ákveðinna samskiptaörðugleika," sagði hann, en bætti við að enskumælandi útgáfa þess búnaðar hafi áður verið sett í tvo farsíma, hjá Helga Hjörvar alþingismanni og Arnþóri Helgasyni, framkvæmdastjóra Öryrkjabandalags Íslands. Mobilespeak-búnaðinn er hægt að nota í flesta farsíma með Symbian-stýrikerfi, en sérstaklega er mælt með Nokia 6600 farsímanum. Ekki skiptir máli við hvaða fjarskiptafyrirtæki notandinn skiptir.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×