Innlent

Heiðin gröf við Kolkuás

Gröf sem talin er heiðin fannst við Kolkuás, nálægt Hólum í Hjaltadal, í vikunni. Mannabein og svínakjálki voru í gröfinni. Fundurinn er afar óvæntur segja fræðimenn sem vinna að uppgreftri á svæðinu. Fræðimenn hafa unnið að uppgreftri húsaleifa við Kolkuás í um það bil þrjár vikur. Margt óvænt hefur komið í ljós við uppgröftinn og í síðustu viku fannst gröf með mannabeinum. Þá fannst einnig músahola og inni í henni kjarnar úr plómum eða sveskjum sem væntanlega hafa verið fluttar hingað til lands á síðmiðöldum. Þá hafa fundist leifar af múrsteini og þakefni í yngstu lögunum og einnig annar varningur sem talinn er tengjast Hólastóli.. En þrátt fyrir fundinn eru ekki öll kurl komin til grafar og athugun á gröfinni er enn á byrjunarstigi. Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur segir ennþá erfitt að segja til um frá hvaða tíma gröfin er. Mannvistaleifarnar sem fundist hafa eru hluti af hauskúpu, tönnum og upphandleggsbeini að því er talið er. Ragnheiður segir fundinn vera mjög óvæntan þar sem hópurinn hafi verið að rannsaka húsaleifar. Erlendir fræðimenn sem að uppgreftrinum koma telja fundinn afar áhugaverðan. Fleming Rieck frá Þjóðminjasafni Danmerkur segir hópinn hafa fundið fyrstu merkin um tengslin við Hóla. Þeir hafi fundið tígulsteina og kalk til notkunar við byggingu húsa og brot úr skífum sem sennilega séu þakskífur. Það þýðir að þeir hafi fundið byggingarefni sem flutt hefur verið til hafnar biskupssetursins að Hólum og það er mjög mikilvægur áfangi að sögn Riecks. Myndin er frá Hólum í Hjaltadal.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×