Innlent

Verkfalli mótmælt

Mótmælastaða foreldra grunnskólabarna hófst á Austurvelli nú klukkan tólf. Með henni eru foreldrar að mótmæla fyrirhuguðu kennararverkfalli og knýja á um lausn í kjaradeilu kennara og sveitarfélaga. Framkvæmdastjóri Heimilis og skóla segir að verkfall geti haft afdrifaríkar afleiðingar. Samningafundur í deilu kennara við sveitarstjórnir stóð langt fram á nótt í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Ekki er ljóst hverjar lyktir fundarins urðu eða hvert verður framhald viðræðnanna, en boðað verkfall grunnskólakennara hefst á mánudagsmorgun, náist ekki samkomulag um helgina. Komi til verkfalls verður nám um 45 þúsund barna á aldrinum 6 til 15 ára í uppnámi og foreldrar verða í erfiðleikum með að sækja vinnu sína. Nú klukkan tólf hófst mótmælastaða foreldra grunnskólabarna á Austurvelli, en þar er fyrirhuguðu verkfalli mótmælt og deilendur hvattir til þess að leysa málið. Mótmælastaða hefur ennfremur verið boðuð á sama stað og á sama tíma, á morgun laugardag og á sunnudag. Foreldrar á landsbyggðinni og Heimili og skóli, sem eru landssamtök foreldra, hafa hvatt foreldra í öðrum sveitarfélögum til þess að grípa til samskonar aðgerða. Anna María Proppé, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, segir verkfall geta haft afdrifaríkar afleiðingar. Hún segir mest um vert að huga að börnunum, sem eiga lagalagan rétt á að ganga í grunnskóla og eiga rétt á ákveðnum stundafjölda og því vilji Heimili og Skóli ýta á það að lausn verði fundin, þannig að börnin geti haldið áfram í skólanum. Anna segir verkfall hafa gífurleg áhrif á bæði fjölskyldur og samfélagið í heild sinni, enda séu foreldrar í vandræðum með börn sín á meðan á verkfalli standi. Þá séu áhrif á börnin afar slæm, þeim sé kippt út þegar þau eru rétt nýbyrjuð, sem sé sérstaklega slæmt fyrir yngstu börnin. Landssamtökin Heimili og Skóli hafa sent opið bréf til Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar segir meðal annars að margföldunaráhrif verkfalls geti orðið mjög víðtæk fyrir samfélagið í heild og því sé ábyrgð deilenda mikil. Verkfall sé neyðarvopn, en nauðsynlegt sé að leysa málið, þannig að sú óvissa sem nú blasir við, skapist ekki reglulega í menntakerfinu. Ennfremur segir að fyrst og fremst þurfi að hugsa um þarfir barnanna, og ekki megi láta deilur fullorðinna einstaklinga skyggja á þær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×